Framtíðin er björt í Fjarðabyggð

Flokkur framtíðarinnar ásamt Svövu kennara
Flokkur framtíðarinnar ásamt Svövu kennara

Nemendur 10. bekkjar hafa síðustu vikur unnið að stofnun stjórnmálaflokka með öllu því sem því tilheyrir, Hver flokkur vann sína málefnaskrá en því fylgir mikil rannsóknarvinna og ígrundun á stjórnmálum á Íslandi og starfsemi og áherslu stjórnmálaflokka. 

Þeir buðu svo nemendum í 7. - 9. bekk á sal til að hlusta á framboðsræður flokkana og kjósa þann flokk sem þeim leist best á.

Þrír flokkar voru í framboði. Flokkur framtíðarinnar lagði áherslu á hagkvæmni í rekstri sveitafélagsins og ráðdeild. Þeim fannst mikilvægt að fleiri skemmtanir yrðu í boði fyrir unga fólkið, símabanninu yrði aflétt og að skólinn hæfist seinna á morgnana. Flokkur Dúsans vildi stofna sjálfstætt Austurland, að skattpeningar Austfirðinga myndu renna til framkvæmda á Austurlandi. Þau vildu engar breytingar á skólamálum en fannst rétt að stoppa símabannið. Þau vildu líka að fleira yrði gert fyrir krakkana í bænum. Flokkurinn Sameind vildi leggja áherslu á framtíð unga fólksins í Fjarðabyggð. Þau vildu aukna sameiningu t.d. milli skóla með það að markmiði að minnka álag á kennurum og samræma áherslur milli skóla. Sameind vildi lika breyta símareglunum og fjölga skemmtunum fyrir unga fólkið.

Kosningar fóru fram eftir hefðbundum reglum. Kjörklefum var komið upp og þeir vaktaðir af kennurum svo allir hefðu næði til að kjósa. Fór svo að lokum að Flokkur framtíðarinnar bar sigur úr býtum. Verkefnið var ákaflega vel unnið hjá nemendum og þeim til mikils sóma.

Hér má sjá myndir af frambjóðendum.