Eineltisáætlun

Rafræn tilkynning um einelti

Eineltisáætlun Grunnskóla Reyðarfjarðar

Við líðum hvorki einelti né annað ofbeldi í Grunnskóla Reyðarfjarðar. Starfsfólk skólans leitast við að fyrirbyggja einelti og ofbeldi og leysa þau mál sem upp koma á eins farsælan hátt og kostur er. Það er einlægur vilji okkar að skólinn okkar sé öruggur vinnustaður og að þar líði öllum vel. Við sýnum nemendum okkar festu og ákveðni en um leið hlýju og virðingu.

Síðan 2007 hefur starfsfólk Grunnskóla Reyðarfjarðar unnið samkvæmt aðferðum Dan Olweus gegn einelti. Olweus er norskur sálfræðingur sem hefur til margra ára unnið að rannsóknum á einelti og sett saman áætlun sem miðar að því að uppræta og vinna gegn einelti. Sjá flæðirit eineltisáætlunar.

Bekkjarfundir eru haldnir reglulega í öllum bekkjum. Bekkjarreglur eru fáar en skýrar þar sem áhersla er lögð á virðingu og vináttu. Við höfum sérstaka vinadaga til að styrkja tengsl nemenda og reynum að tryggja öryggi nemenda sem best við getum í frímínútum og á göngum skólans.

Gott samstarf heimila og skóla er lykilatriði í baráttunni gegn einelti. Við leggjum áherslu á að foreldrar séu vel upplýstir um verkefnið og viljum stuðla að aukinni þátttöku foreldra í starfi skólans. Við hvetjum foreldar til að kynna sér áherslur í meðferð eineltismála í handbók um einelti og vináttufærni. 

Handbók um einelti og vináttufærni

Við skólann starfar eineltisteymi. Sé grunur um einelti staðfestur er eineltið formlega tilkynnt á þar til gerðu eyðublaði. Eineltisráð kemur þá saman og vinnur málið samkvæmt flæðiriti.

Árlega taka nemendur í 4.- 10. bekk könnun um líðan og samskipti. Niðurstöður þeirrar könnunar eru kynntar foreldrum.