Valdi nemandi truflun á skólastarfi tekur umsjónarkennari málið í sínar hendur og vinnur að lausn þess í samvinnu við foreldra og kennara. Beri það ekki árangur er málinu vísað til skólastjóra sem vinnur að lausn málsins í samræmi við lög og reglugerðir.
Valdi nemandi truflun á skólastarfi og lætur ekki segjast við áminningu kennara er heimilt að vísa honum úr tíma til skólastjórnenda. Kennari greinir umsjónarkennara frá málavöxtum og umsjónarkennari hefur samband við foreldra.
Verði nemandi uppvís að hafa notað tóbak á skemmtunum skólans eða í skólaferðalögum, í skóla eða á skólalóð er haft samband við foreldra. Ef um notkun áfengis er að ræða skal haft samband við foreldra eða lögreglu. Ef um er að ræða ítrekuð brot er nemandi útilokaður frá þátttöku í öllum skemmtunum og ferðum á vegum skólans.
Þegar nemendur brjóta alvarlega af sér eru foreldrar kallaðir til. Nemanda er vísað frá skóla á meðan afgreiðsla máls er undirbúin. Samkvæmt lögum má málsmeðferð taka allt að 5 virka daga án þess að nemanda sé útvegað annað skólaúrræði. Skólinn vinnur samkvæmt verklagsreglum um málsmeðferð vegna lögbrota og alvarlegra agabrota.