Á föstudaginn héldum við upp á 100 ára afmæli fullveldis Íslands. Við buðum forráðamönnum heim og sýndum þeim afrakstur vinnu vikunnar sem helguð var afmælinu.
Nemendur tóku á móti gestum með því að syngja þjóðsöngin og var það tilkomumikil upplifun. Því næst fluttu nemendur á unglingastigi frumsamin ljóð og rapp. Nemendur á miðstigi dönsuðu svo þjóðdans og nemendur á unglingastigi enduðu formlega dagskrá með því að dansa skottís.
Þá var gestum boðið að ganga um skólann og skoða verkefni nemenda. Þar mátti sjá ýmsan fróðleik úr 100 ára sögu Íslands. Hugmyndir Íslendinga að þjóðfána prýddu einn vegginn, útskurðarverkefni nemenda voru til sýnis, myndbönd af myndskreyttum þjóðsögum og margt fleira. Nemendur gengu um og buðu sneið af jólakökum sem nemendur höfðu bakað fyrir sýninguna.
Það voru ekki allir tilbúnir til að hætta að dansa enda þykir okkur í Grunnskóla Reyðarfjarðar ákaflega gaman af því að dansa. Þess vegna var dans stiginn áfram í salnum og tóku sumir gestanna þátt. Myndir frá viðburðinum má sjá í myndasafni skólans, efst á heimasíðunni.
Heiðarvegur 14a 730 Reyðarfjörður Sími á skrifstofu: 470 9200 Netfang: rey@skolar.fjardabyggd.is |
Skrifstofa skólans er opin frá |