Árshátíð

Á þessum fordæmalausu tímum er allt með öðru sniði en vant er. Það á einnig við um árshátíðina okkar. 200 nemendur skólans geta til að mynda ekki komið allir saman þar sem eingöngu mega 150 börn vera saman í rými. Lokaatriði árshátíðarinnar verður því ekki samsöngur allra nemenda skólans eins og venjan er, en verður engu að síður fjörlegt.

Auk þess þurfum við að takmarka fjölda gesta á sýninguna. Við höfum því ákveðið að hafa eina sýningu kl. 17:00 nk. fimmtudag, 25. mars og taka hana upp. Við ætlum að bjóða foreldrum barna í 1. og 2. bekk að kaupa aðgang í sal. Rökin fyrir því eru þau að fyrir nemendur 1. bekkjar er árshátíðin stór stund en þá koma nemendur fyrst fram, kynna sig og segja hvað þeir ætli að verða í framtíðinni. Vegna sóttvarnaraðgerða fengu nemendur í 1. bekk á síðasta skólaári ekki þetta tækifæri en fá það nú.

Upptakan af sýningunni verður síðan sett á lokað svæði á Youtube og gefst foreldrum kostur á að kaupa aðgang að upptökunni. Það gerum við vegna þess að á hverju ári fær 9. bekkur ágóðann af árshátíðinni upp í ferðasjóð og þar sem erfiðlega hefur gengið að fá fjáröflunarverkefni þetta árið þurfa þau á þessum aurum að halda.