Dj. flugvél og geimskip

Nemendur fengu skemmtilega heimsókn í gær þegar þeim var boðið á BRAS viðburðinn „Hringferðin - Tónlistarferðalag með dj. flugvél og geimskip“.

Það er Menningarstofa Fjarðabyggðar og Tónlistarmiðstöð Austurlands sem býður upp á tónlistar- og fræðsluverkefnið „Hringferðin - Tónlistarferðalag með dj. flugvél og geimskip“ á BRAS. Farið er með verkefnið í skóla á Austurlandi þar sem börnum er boðið að upplifa tónlist, sköpunarkrafturinn virkjaður sem og ímyndunaraflið þegar farið var í tónlistarferðalag langt út í geim og niður í undirdjúpin með dj. flugvél og geimskip.

dj. flugvél og geimskip er sólóverkefni Steinunnar Eldflaugar Harðardóttur sem endurspeglar mátt ímyndunaraflsins og fjölbreytileika tónlistarinnar. Steinunn sækir innblástur sinn í ævintýri, furður hafsins og óendaleika alheimsins þar sem hún leikur sér með glaðværa tóna og litrík ljós og segir einstakar sögur. Sviðsframkoma hennar er lífleg og fjörug en um leið dulúðleg og hættuleg en á viðburðinum í gær bauð hún nemendum með sér í ævintýralega Hringferð þar sem undirdjúpin og geimurinn var skoðaður á fjörugan og skemmtilegan hátt. Steinunn fræddi krakkana um sköpun og tónlist, hvernig hún nýtir sér tæknina og hvað er gott að hafa í huga þegar verið er að vinna að listsköpun en hún er ekki bara tónlistarkona heldur er hún myndlistarkona og vinnur einnig við töluleikjagerð. dj. flugvél og geimskip hefur gefið út fjórar sólóplötur, nú síðast Our Atlantis (2018), Nótt á hafsbotni (2015) og Glamúr í geimnum (2013) en fyrst kom Rokk og róleg lög (2010). Plötur dj. flugvél og geimskip hefur verið vel tekið af gagnrýnendum, hún hefur verið tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna, unnið Kraumsverðlaunin fyrir bestu plötu ársins, fengið frábæra dóma í erlendum tónlistartímaritum á borð við Uncut og Mojo og haldið tónleika um allan heim

 

Hér eru hlekkir á youtube og Spotify en börnin báðu mikið um það í dag til að geta haldið áfram að hlusta þegar þau kæmu heim.

Youtube

https://youtu.be/BJSZPdzIdT8?si=iPONu02BGx-RWoRf

https://youtu.be/hTLcyBQ88NM?si=1YiNnWdfVUEjN7rD

Spotify

https://spotify.link/orFsKMj2KDb