Rímspillisár

Nú hefur komið í ljós að dagatalið sem við studdumst við þegar unnið var að skóladagatali þessa skólaárs virðist ekki hafa haft vitneskju um að árið 2023 væri rímspillisár.

Þessa misskilnings virðist gæta á ýmsum dagatölum og upplýsingasíðum en rétt er að bóndadagur árið 2024 er föstudagurinn 26. janúar. Lang oftast ber bóndadag upp á bilinu 19.-25. janúar, en á um það bil 30 ára fresti hefur svokallað rímspillisár þau áhrif að hann er þann 26. janúar og þar með upphaf þorra. Hægt er að lesa nánar um þessar reiknireglur á Vísindavef Háskóla Íslands.

Þetta hefur einnig þau áhrif að konudaginn ber upp á 25. febrúar en ekki 18., líkt og skráð var á dagatali skólaársins. Dagatalið hefur nú verið uppfært með réttum upplýsingum.

Þessar breytingar hafa í raun engin áhrif á skólastarfið þar sem við munum ekki breyta dagsetningu á þorrablóti nemenda. Hins vegar hlaupa drengir inn þorra og stúlkur góu og munum við gæta þess að gera það á réttum dögum.