Einn af fyrstu viðburðum skólaársins er útivistardagur að hausti. Allir bekkir hafa nú tekið útivstardag og fengið til þess sól og blíðu.
Yngstu bekkirnir fóru í mislangar gönguferðir í nágrenni skólans en fjórði bekkur labbaði Eyrarhjalla, gamlan veg út með firði, sunnanverðum. Fimmti bekkur heimsótti Stöðvarfjörð og Steinasafn Petru og sjötti bekkur gekk Staðarskarð. Unglingastigið hafði um tvo göngumöguleika að velja, að ganga í Stapavík eða Stórurð. Veðrið hefur leikið við okkur þetta haustið og þá er gaman að njóta þess að vera úti í náttúrunni.
Myndir frá deginum má sjá hér
Við lítum svo á að útivistardagur sé mikilvægur hluti skólastarfs enda hægt að merkja við mörg hæfniviðmið í slíkum ferðum.
Í riti mennta- og menningarmálaráðuneytisins um grunnþættir menntunar, Heilbrigði og velferð, segir meðal annars að hreyfing þurfi að vera hluti af daglegu skólastarfi. Rétt eins og næring og hvíld er hreyfing nauðsynleg fyrir líkamlegan þroska barna og ungmenna. Vitað er að hreyfing á unga aldri hefur ekki aðeins áhrif á heilsu og vellíðan á því æviskeiði heldur einnig síðar á lífsleiðinni.
Í ráðleggingum Embættis landlæknis um hreyfingu segir að öll börn ættu að hreyfa sig minnst eina klukkustund á dag. Er þá átt við hreyfingu sem dugar til að barnið mæðist og svitni.
Margar rannsóknir sýna að hreyfing hefur jákvæð áhrif á fjölmarga þætti eins og námsárangur, svefn, líðan, kvíða, þunglyndi, blóðþrýsting, blóðfitu, streitu, beinþéttni, úthald, einbeitingu, vöðvauppbyggingu, þroska hjartavöðvans og efnaskipti. Að sama skapi er hreyfingarleysi áhættuþáttur fjölmargra sjúkdóma.
Ein leið til að ýta undir aukna hreyfingu í skólastarfi er útikennsla þ.e. að flétta saman útiveru, hreyfingu og nám. Gönguferðir, langar sem stuttar, auðveldar sem erfiðar, eru góð, alhliða hreyfing og mikil heilsubót auk þess sem þar fer fram mikið nám. Í gönguferðum fá nemendur leiðsögn um umhverfið sem gengið er um, örnefni í nágrenninu, gróðurfar og sögu, svo eitthvað sé nefnt.
Gönguferðir eru líka góð leið til að ýta undir þrautseigju sem mikilvægt er að efla hjá börnum og ungmennum, það að gefast ekki upp heldur halda ótrauð áfram þó eitthvað sé erfitt eins og að labba upp fjallshlíð eða hoppa yfir skurð. Það er allt í lagi að verða þreyttur. Þá er gott að setjast niður á góðan stein og hvíla lúin bein og halda síðan ótrauður áfram. Það er áhyggjuefni hvað úthald barna virðist þverrandi og á ábyrgð okkar forráðamanna að snúa þeirri þróun við.
Heiðarvegur 14a 730 Reyðarfjörður Sími á skrifstofu: 470 9200 Netfang: rey@skolar.fjardabyggd.is |
Skrifstofa skólans er opin frá |