Á síðusta áratug náðist markverður árangur í því að draga úr notkun barna og ungmenna á Íslandi á áfengi og tóbaki. Í rannsóknum kemur fram að enn eru íslensk ungmenni með lægsta hlutfall sígarettureykinga af unglingum í Evrópulöndum. Af öllum Norðurlöndunum var fátíðast að íslensk ungmenni hefðu prófað að neyta áfengis, drukkið áfengi eða orðið ölvuð sl. 30 daga. Þessi mikilvægi árangur náðist með vitundarvakningu og samtilltu átaki allra hlutaðeigandi aðila. Forvarnarstarf var aukið markvisst og fræðslu beint til ungmenna, forráðamanna þeirra og starfsmanna skóla- og frístundar.
Nú er það hins vegar svo að rannsóknir sína að notkun íslenskra ungmenna á refrettum hefur aukist og á Norðurlöndunum var næst algengast að íslenskir unglingar hefðu einhvern tíma á ævinni reykt rafrettu. Eins hafa menn áhyggjur af notkun unglinga á nikótínpúðum. Síðustu fréttir um aukna notkun á lyfseðilsskyldum lyfjum eða læknadópi eru líka mikið áhyggjuefni.
Forvarnarnefnd Fjarðabyggðar vinnur að aðgerðaáætlun forvarna í Fjarðabyggð. Liður í þeirri aðgerðaáætlun er að bjóða nemendum í 8. – 10. bekk upp á vímuefnafræðslu. Hjúkrunarfræðingur frá fyrirtækinu Heilsulausnir kom til okkar í dag og hitti nemendur á sal. Þar talaði hún um vímuefni, fíknisjúkdóma og áhrif vímuefna á líf, heilsu og huga. Hún sagði þeim að unglingar væru stærsti markhópur þeirra er seldu vímuefni og mikilvægt fyrir þau að taka ákvörðun um að prófa alls ekki. Enginn veit fyrir fram hver verður fíkill og hver ekki. Hún sagði afleiðingar vímuefnanotkunar birtast í þunglyndi, kvíða og aukinni tíðni sjálfsvíga. Vímuefni valda sjúkdómum á geði en hafa líka áhrif á hjartað þannig að fleiri deyja ungir. Hún sagði frá reynslu sinni sem hjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku þar sem komið var inn með ungt fólk í andnauð vegna inntöku vímuefna eða læknadóps. Verst af öllu er að aðgengi að vímuefnum verður sífellt auðveldara og verðið á því fer lækkandi.
Foreldrar gegna gríðarlegu ábyrgðarhlutverki í lífi barna sinna. Samvinna foreldra var grundvallarþáttur í þeim árangri sem náðist fyrir áratug. Við höfum kannski öll sofnað á verðinum en nú þurfa allir að vera vakandi og vinna saman
Heiðarvegur 14a 730 Reyðarfjörður Sími á skrifstofu: 470 9200 Netfang: rey@skolar.fjardabyggd.is |
Skrifstofa skólans er opin frá |